mán. 29. apr. 2024 10:27
Fylgi Jóns Gnarr í nýjustu skoðanakönnun Prósents mælist nú 16%.
„Þakklátur að hanga í toppsætunum“

„Ég er varla byrjaður í minni kosningabaráttu og ég hef engar áhyggjur af þessu. Ég lít á þessa baráttu eins og maraþonhlaup og það er ennþá langt í endamarkið.“

Þetta segir Jón Gnarr, leikari og fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur, í samtali við mbl.is þegar leitað var eftir viðbrögðum hans um nýjustu skoðanakönnun Prósents fyrir Morgunblaðið. Jón mælist nú með 16% fylgi í baráttunni um Bessastaði og er fjórði á eftir Höllu Hrund Logadóttur, Baldri Þórhallssyni og Katrínu Jakobsdóttur. Fylgi Jóns hefur dalað en í síðustu könnunum mældist fylgi hans 17,2%.

Hef engar áhyggjur

„Það er greinileg mikil hreyfing á fylginu og þó ég sígi eitthvað niður frá síðustu könnun þá hef ég engar áhyggjur. Það er gaman að vera í einu af toppsætunum en það er líka fallvalt þar sem enn er langt í kosningarnar,“ segir Jón.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/04/29/halla_hrund_tekur_forystu_i_konnun/

Hann segir jafnframt, að til að halda dampi þá þurfi að hafa mikið fyrir því. Jón líkir baráttunni við maraþonhlaup og hann sé núna að lulla en hugsunin sé svo að bæta í þegar nær dregur að kosningunum.

Stemningin pólitískari en ég hafði reiknað með

„Mér finnst fín leið að koma ekki út með öll trompin strax heldur eiga einhver inni þegar á líður. Það hefur komið mér svolítið á óvart að stemningin í þessari kosningabaráttu hefur verið miklu pólitískari heldur en ég hafði reiknað með. Mér fannst til að mynda Baldur mjög pólitískur þegar hann kynnti framboð sitt og þunginn varð enn meiri þegar Katrín steig fram,“ segir Jón.

Jón segir gaman að vera í efstu sætunum í þeim skoðanakönnunum sem hafa verið í gangi að undanförnu og honum þykir sömuleiðis gaman að sjá Höllu Hrund skjótast upp á stjörnuhimininn.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/04/27/forsetaframbjodendur_i_landsbyggdartur/

„Ég er mjög þakklátur að hanga í toppsætunum og eiga möguleika á að vinna,“ segir Jón, sem verður í Edinborgarborgarhúsinu á Ísafirði í kvöld þar sem boðið verður til opins umræðufundar sem haldinn verður á vegum Morgunblaðsins og mbl.is. 

 

 

 

 

til baka