Leitin að bestu kaffistöðunum í Feneyjum

Café Florian er eitt elsta kaffihúsið á Ítalíu. Það er …
Café Florian er eitt elsta kaffihúsið á Ítalíu. Það er hlaðið gömlum sjarma og það þarf að fá sér kaffi þar að minnsta kosti einu sinni. Ljósmynd/María Margrét Jóhannsdóttir

Kaffibollinn er góður en hann er enn betri í fallegu umhverfi. Þegar við erum á ferðalagi þá er gott að gefa sér tíma og setjast niður til að njóta kaffibollans frekar en að taka hann með sér á þeytingi um stræti.

Blaðamaður ferðavefs Mbl.is drekkur mikið kaffi og er haldinn mikilli fullkomnunaráráttu þegar kemur að kaffi. Á nýlegu ferðalagi um Feneyjar reyndi talsvert á þessa áráttu um besta kaffibollann í besta umhverfinu.

Með þessum pistli er markmiðið að deila lífsreglum blaðamanns um kaffi og gefa fólki um leið hugmyndir um hvar leynast bestu kaffistaðirnir í Feneyjum.

1. Aldrei að fá sér kaffibolla á hótelinu

Rétt eins og morgunverðurinn á hótelinu þá er hótelkaffi aldrei gott. Það er alltaf betri ákvörðun að fara út af hótelinu og finna sér sjarmerandi kaffihús í sólinni. Ítalskt kaffi er sem betur fer alltaf gott og kaffihúsin eru fjölmörg í Feneyjum. Hæst ber að nefna hið fornfræga Café Florian sem er á Markúsartorginu og er elsta kaffihúsið á Ítalíu. Þar er líka gaman að vera á kvöldin því þá er hægt að hlusta á lifandi tónlist.

Ítalía er einstaklega sjarmerandi hvert sem litið er. Það er …
Ítalía er einstaklega sjarmerandi hvert sem litið er. Það er því aldrei góð hugmynd að fá sér bara kaffi á hótelinu. Ljósmynd/María Margrét Jóhannsdóttir

2. Fara út í Giudecca

Í Feneyjum fær maður sér „strætó“ passa í bátana og þá eru manni allir vegir færir. Upplagt er að sigla út í Giudecca-eyjuna og setjast við höfnina þar. Giudecca er fáfarnari staður en afar sjarmerandi. Þar nýtur maður meira næðis frá ágangi túristanna og getur horft úr fjarlægð yfir fenið á iðandi mannlíf aðaleyjunnar og virt fyrir sér allar fallegu byggingarnar. Þeir sem eru til dæmis að heimsækja Feneyjatvíæringinn geta tekið bátinn frá Arsenale eða San Zaccaria og siglt út í Giudecca á örfáum mínútum. Það gæti verið betri kostur en að setjast niður á aðal túristagötunni hjá Arsenale.

Í Giudecca má setjast niður í ró og næði langt …
Í Giudecca má setjast niður í ró og næði langt frá ys og þys borgarinnar og drekka kaffi með útsýni yfir Feneyjar. Ljósmynd/María Margrét Jóhannsdóttir

3. Murano eyjan

Einn daginn skoðaði sú sem þetta skrifar kirkjugarðinn í Feneyjum sem er afar sjarmerandi staður sem hægt er að mæla með að allir kíki í. Ítalskir kirkjugarðar eru miklu skrautlegri en maður á að venjast og er hvert einasta leiði skreytt með tilkomumiklum gerviblómvöndum og á hverjum legsteini er mynd af hinum látna.

Þegar þangað var komið var upplagt að halda ferðinni áfram úti í Murano-eyju sem þekkt er fyrir glerlistaverk. Sú sem þetta skrifar hafði þó takmarkaðan áhuga á glerverksmiðjunni og lét sér nægja góðan kaffibolla á torgi þessarar sjarmerandi eyju.

Torgið á Murano-eyju er einstaklega sjarmerandi.
Torgið á Murano-eyju er einstaklega sjarmerandi. Ljósmynd/María Margrét Jóhannsdóttir

4. Gettóið í Feneyjum

Við hlið Gyðingasafnsins í Feneyjum er falinn gimsteinn. Þar er veitingastaðurinn Ba Ghetto sem reiðir fram ýmsa rétti sem eiga rætur sínar að rekja til menningarheims gyðinga. Staðurinn er í lokuðum garði með útsýni yfir eitt fenið. Þar er tilvalið að setjast niður og fá sér kaffi eða veitingar. Andrúmsloftið er rólegt og heimamenn áberandi þar.

Í Gettóinu er lítill garður umkringdur múrsteinsveggjum. Þar leynist dásamlegur …
Í Gettóinu er lítill garður umkringdur múrsteinsveggjum. Þar leynist dásamlegur veitingastaður sem heitir Ba Ghetto. Ljósmynd/María Margrét Jóhannsdóttir

5. Dorsoduro-hverfið

Það er hægt að labba yfir brú sem leiðir mann út í Dorsoduro-hverfið. Þar er að finna Peggy Guggenheim-listasafnið sem er einstakt safn með mikla og skemmtilega sögu. En Guggenheim var afar litríkur persónuleiki sem lifði ævintýralegu lífi í Feneyjum. Listasafnið er fyrrum heimili hennar og þar má sjá ýmsa dýrgripi. Þar er líka gott kaffihús í litlum garði innan veggja safnsins. Margir frægir leggja leið sína í safnið en þess ber að geta að blaðamaður rakst á Hollandskonung í heimsókn sinni á safnið.

Á Peggy Guggenheim-safninu er kaffihús í litlum garði.
Á Peggy Guggenheim-safninu er kaffihús í litlum garði. Ljósmynd/María Margrét Jóhannsdóttir

5. Alltaf að panta sér tvo kaffibolla á hverjum stað

Reynsla þeirrar sem þetta skrifar er þannig að maður veit aldrei hvenær næsti kaffibolli verður. Sérstaklega þegar maður er haldinn þessari fullkomnunaráráttu. Hefur hún því vanið sig á að panta alltaf tvo tvöfalda espresso á hverjum áningarstað. Það er hvort eð er alltaf svo lítið í hverjum bolla, í rauninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert