Jákvæðir í garð tillagna Ísraelsmanna um vopnahlé

Yfir 30 þúsund íbúar Gasa hafa látið lífið frá 7. …
Yfir 30 þúsund íbúar Gasa hafa látið lífið frá 7. október. AFP

Sendinefnd á vegum Hamas er væntanleg til Egyptalands í dag til að bregðast við nýjum tillögum Ísraelsmanna um vopnahlé á Gasa.

Fulltrúi Hamas sagði samtökin ekki gera neinar stórar athugasemdir við nýjustu tillögurnar.

„Andrúmsloftið er jákvætt nema að það komi fram nýjar hindranir frá Ísraelsmönnum,“ sagði fulltrúi Hamas, sem vildi ekki koma fram undir nafni, við AFP-fréttastofuna.

Egyptaland, Katar og Bandaríkin hafa reynt að eiga milligöngu í friðarviðræðunum síðustu mánuði en án teljanlegs árangurs.

Er Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, nú kominn til Sádi-Arabíu í sjöundu heimsókn sinni til heimshlutans frá árás Hamas á Ísrael 7. október. Mun hann einnig ferðast til Ísraels og Jórdaníu síðar í vikunni.

Gætu látið af áformunum 

Stjórnvöld í Ísrael hafa heitið því að ráðast gegn sveitum Hamas í Rafah, í suðurhluta Gasastrandarinnar, þrátt fyrir þrýsting alþjóðasamfélagsins að láta af þeim áformum vegna áhyggna af óbreyttum borgurum sem þar dvelja og hafa reynt að leita skjóls.

Aftur á móti hefur utanríkisráðherra Ísraels, Israel Katz, sagt að stjórnvöld gætu stöðvað árásina komist Hamas og ísraelsk stjórnvöld að samkomulagi.

22 létust í árás

Yfirvofandi hungursneyð er á Gasa þar sem Ísraelsher hefur jafnað við jörðu heimili og mikilvægar stofnanir á borð við spítala og skóla. Þá hafa yfir 30 þúsund fallið, að sögn heilbrigðisyfirvalda, sem eru undir stjórn Hamas.

Heilbrigðisstarfsfólk og viðbragðsaðilar á Gasa segja minnst 22 hafa fallið í árás á Rafah síðastliðinn sólarhring. Segja sjónarvottar að Ísraelsher hafi hæft þrjú heimili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert