„Ekkert haft samband við mig“

Viktor Traustason.
Viktor Traustason. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Framboð Viktors Traustasonar til embættis forseta Íslands var ekki metið gilt af landskjörstjórn. Hann segist fyrst hafa frétt af því þegar hann mætti á fundi kjörstjórnarinnar á Þjóðminjasafninu í morgun.

„Ég fékk engar fregnir. Það var ekkert haft samband við mig hingað til,” segir Viktor, sem kveðst fyrst hafa haldið að hann ætti að fara í Norræna húsið á fund kjörstjórnar. Sem betur fer hafi hann komist á Þjóðminjasafnið í tæka tíð.

„Mig langaði til þess að bjóða fram skýr og markviss stefnumál í embættið,” segir hann, spurður út í áherslumál sín.

„Númer eitt, að tryggja þrískiptingu ríkisvaldsins með því að leyfa þingmönnum ekki að sinna ráðherraembættinu, ekki nema þá að þeir segi af sér þingmennskunni fyrst,” segir hann og nefnir næst þörfina á að búa til varnagla fyrir þjóðina til að koma í veg fyrir að Alþingi samþykki frumvörp sem eru í óþökk meirihlutans.

„Númer þrjú, að tryggja að Alþingi starfi með umboði meirihluta kjósenda. Það myndi ég gera með því að passa upp á það sem ég kalla týndu þingsætin.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert