„Hefur verið algjört ævintýri“

Helga Þórisdóttir forsetaframbjóðandi.
Helga Þórisdóttir forsetaframbjóðandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta leggst afskaplega vel í mér. Reynslan mín og þekkingin fékk mig út í þessa vegferð og ég er stolt að geta veitt þjóðinni kost á að velja minn bakgrunn,” segir Helga Þórisdóttir forsetaframbjóðandi sem var mætt á fund landskjörstjórnar í morgun þar sem tilkynnt var um framboðin.

Hún er einn þeirra ellefu sem verða í framboði til embættis forseta Íslands.

„Nú vona ég að allt fari að hrökkva í gírinn og við getum fengið að tjá okkur og fólk geti út frá meira jafnræði fengið að velja hver eru með bestu svörin og hverjum treysti ég best fyrir íslenskri þjóð og íslensku samfélagi,” bætir hún við.

Helga fékk frest þangað til í gær til að safna fleiri undirskriftum eftir úrskurð landskjörstjórnar þess efnis á föstudaginn og segir Helga það hafa komið sér á óvart að hafa ekki verið komin með tilskilinn fjölda meðmælenda. Hún hafi verið tæplega 100 meðmælum yfir í Sunnlendingafjórðungi en á endanum hafi 13 vantað.

„Svona skilst mér að gerist í þessu umhverfi. Ég hef enga reynslu í því, því ég hef aldrei verið í pólitíkinni og aldrei verið í stjórnmálum og ekki á samfélagsmiðlum,” segir Helga og minnist í kjölfarið á kvikmyndina „Kona fer í stríð“.

„Ég er búin að taka þetta pínulítið „Kona fer í framboð”,” segir hún og hlær.

„Þetta hefur verið algjört ævintýri og nú vona ég að ég fari að ná örlitlu flugi með íslenskri þjóð.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert