Óásættanlegt hversu langan tíma viðræður hafa tekið

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir óásættanlegt hversu langan tíma kjaraviðræður BSRB við ríkið hafa tekið. Það sé komin mikil óánægja og kurr í hennar hóp yfir stöðunni. 

„Eins og staðan er núna þá er mjög langt á milli þegar kemur að hvernig áfanginn á að líta út varðandi jöfnun launa milli markaða. Þannig að það er ekki útlit fyrir að þetta klárist á næstu dögum,“ svarar Sonja spurð hvort sjái fyrir endann á viðræðunum. 

Ólíkar skoðanir um fyrirkomulagið

Sameiginlegt mál allra 19 aðildarfélaga bandalagsins eru á borði BSRB í viðræðunum. Snúa þessi mál að vaktarvinnu og jöfnun launa millu markaða, en Sonja segir það sameiginlega kröfu aðildarfélaga bandalagsins að ekki verði gengið frá kjarasamningum nema tekið verði skref í átt að jöfnun launa milli markaða. 

„Það var undirritað áfangasamkomulag í síðustu kjarasamningum, fyrir ári síðan, um að taka skref í áttina að því að jafna laun milli markaða. Nú er verið að ræða að gera sambærilegt en það eru hins vegar mjög ólíkar skoðanir á milli okkar, launafólks annars vegar og atvinnurekenda hins vegar, hvað það eigi að fela í sér,“ útskýrir Sonja. 

Stytting vinnuvikunnar ekki lengur tilraunarverkefni

Á sama tíma segir hún miklar viðræður eiga sér stað um vaktavinnu sem í grunnin snúist um betrumbætur á þeim breytingum sem gerðar voru með kjarasamningum 2020 þegar stytting vinnuvikunnar var innleidd hjá vaktavinnu- og dagvinnufólki.

Á þeim tíma segir Sonja að gert hafi verið fylgiskjal með kjarasamningunum um þessar breytingar, en nú eigi að setja þær inn í kjarasamninginn sjálfan. Þannig geti launagreiðendur ekki lengur litið styttingu vinnuvikunnar sem tilraunarverkefni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert