Skipuleggja húsnæðið út frá ræstingu

Ari Þórðarson, framkvæmdastjóri Hreint, segir að í nýju húsnæði fyrirtækisins …
Ari Þórðarson, framkvæmdastjóri Hreint, segir að í nýju húsnæði fyrirtækisins hafi verið teknar margar litlar ákvarðanir við hönnun hússins til að gera ræstinguna einfaldari. Húsið sé því í raun sýningargluggi ræstinga. mbl.is/Arnþór

„Ein hugsun okkar var að búa til húsnæði sem væri öðrum fyrirtækjum fyrirmynd í því hvernig hægt er að skipuleggja ræstingar með því að ná hámarksárangri í skipulagi hússins til að lengja endingartíma ræstingar og minnka tilkostnað,“ segir Ari Þórðarson framkvæmdastjóri Hreint en Hreint flutti nýverið úr Auðbrekku, þar sem fyrirtækið var í 40 ár, og í Vesturvör í Kópavogi.

„Við erum fyrst og fremst að stækka við okkur, að koma undir okkur húsnæði til þess að halda utan um stækkun félagsins á undanförnum árum og til næstu ára. Það var vitanlega kominn tími á margt í Auðbrekkunni enda höfðum við verið þar síðan 1983 en hér erum við á einu gólfi sem gerir allt einfaldara. Við erum komin í húsnæði sem hentar okkar rekstri sem gerir það að verkum að yfirsýnin verður betri og ferlar verða auðveldari.“

Það er skynsamlegt að vera ekki með margar tegundir af …
Það er skynsamlegt að vera ekki með margar tegundir af gólfefnum og velja liti sem er auðveldara að þrífa til að lengja endingartíma ræstinga og minnka kostnað. mbl.is/Arnþór

Láta hverja ræstingu duga lengur

Eins og áður sagði er nýja húsnæðið skipulagt út frá því að lengja endingartíma ræstingar og minnka kostnað og Ari talar um að húsnæðið sé í raun sýningargluggi ræstinga. „Til að ramma inn þessa hugsun þá tókum við fullt af litlum ákvörðunum við hönnun núverandi húsnæðis sem sneru að því að gera ræstinguna einfaldari. Þegar fólk kemur inn í húsið eru til dæmis óhreinindavarnir til staðar að tína óhreinindi undan skóm af fólki svo þau berist ekki lengra inn í húsið heldur en nauðsynlegt er.

Þá er búið að fjarlægja stærsta hlutann af þeim óhreinindum sem almennt berast inn í hús og þar af leiðandi eru óhreinindin ekki út um öll gólf. Þegar komið er alveg inn í húsið eru mottur eða teppi til að taka það sem eftir er af því sem ekki er búið að taka undan skónum. Þetta eru vissulega allt smáatriði en þau geta skipt töluvert miklu máli,“ segir Ari og bætir við að önnur dæmi um svona er litaval og einsleitni í gólfefnum.

„Það skiptir máli að vera ekki með margar tegundir af gólfefnum. Svo þarf að velja liti sem er auðveldara að þrífa og þar sem óhreinindi eru ekki alveg eins áberandi. Svartur er til dæmis ekki góður litur varðandi þrif. Hann sýnir allt ryk sem á hann fellur, ekki það að við séum að komast hjá því að þrífa það heldur til að lágmarka þrifin. Að þrífa ekki meira en nauðsynlegt er þannig að húsnæðinu sé vel viðhaldið og að það líti vel út. Það eru ótrúlegustu atriði sem hafa áhrif á árangur ræstinga, eins og skipulag salerna, hvar sápuskammtarinn er, hvar pappírshaldarinn er og svo framvegis. Það er gott að hugsa fyrir svona smáatriðum til að auðvelda ræstingarnar, lækka kostnað og láta hverja ræstingu duga lengur.“

Hreint flutti nýverið á Vesturvör í Kópavogi en áður hafði …
Hreint flutti nýverið á Vesturvör í Kópavogi en áður hafði fyrirtækið verið í Auðbrekku í 40 ár. Nýja húsnæðinu er ætlað að halda utan um stækkun félagsins til næstu ára. mbl.is/Arnþór

Vélar sem þurrka af og þrífa gólf

Rétt eins og víða annars staðar er snjallvæðing farin að hafa áhrif á ræstingageirann og Ari talar um að það verði áhugavert að fylgjast með framtíðinni í þeim málum. „Það er þegar farið að nota þjarka fyrir ræstingar á gólfum en snjallvæðingin er þó ekki komin eins langt fyrir afþurrkun og þrif á salernum. Þessi þróun helst í hendur við þróun bíla, sérstaklega rafmagnsbíla. Margir bílar eru orðnir nánast sjálfkeyrandi og utan á þeim eru alls konar skynjarar og myndavélar.

Þessi breyting í bílaiðnaðinum smitast yfir í ræstingarnar þannig að skynjararnir sem bílarnir nota verða fjöldaframleiddir og þá verða þeir ódýrari og það færist yfir í ræstingavélar. Ræstingavélarnar verða ódýrari og auðveldari í framleiðslu sem gefur tækifæri til þess að búa til vélar sem geta lesið umhverfið, ratað án hjálpar og svo framvegis,“ segir Ari og bætir við að Hreint er þegar komið með nokkur vélmenni til að þrífa gólf.

„Þau þrífa mjög vel og alls ekki síður en fólk. Við fylgjumst vel með þessari þróun, tökum þátt í henni og horfum til framtíðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka