„Mér fannst ég ömurleg og leitaði strax aftur þá í djammið“

Guðrún Ósk er 33 ára og þriggja barna móðir. Hún …
Guðrún Ósk er 33 ára og þriggja barna móðir. Hún er gestur Tinnu Barkardóttur í hlaðvarpinu Sterk saman. Ljósmynd/Tinna Barkar

Guðrún Ósk er 33 ára, þriggja barna móðir úr Keflavíks, sem hefur glímt við fíknivanda. Hún hefur verið edrú síðan 2020 og ræðir um lífshlaup sitt við Tinnu Barkardóttur í hlaðvarpinu Sterk saman. Guðrún ólst upp hjá einstæðri móður sem stóð eins og klettur með henni allt tíð.

„Ég og eldri systir mín erum alsystur en mamma og pabbi voru aldrei saman, bara þessi tvö skipti. Hann var mjög veikur alkóhólisti í afneitun en hann dó í september síðastliðinn vegna lífernis sem hann lifði og undirliggjandi hjartavanda,“ segir Guðrún Ósk sem átti í stopulu sambandi við föður sinn á meðan hann lifði. Hún hefur kosið að draga hið góða fram og gleyma hinu slæma. 

„Ég er með skakkt rófubein og hryggjaliði eftir að hann beitti mig fyrst ofbeldi þegar ég var fjögurra ára. Ég var í kjól á leiðinni í jarðarför og gerði kjólinn skítugan og það voru afleiðingarnar,“ segir hún. 

Tossinn sem truflaði

Skólaganga Guðrúnar gekk brösuglega. Hún segist ekki hafa passað inn í kassann. Allavega ekki kassann sem skólakerfið býður upp á. Henni gekk illa að læra og gerði fátt annað en að trufla hina í bekknum. Var tossi eins og hún orðar það sjálf.

„Þegar ég var níu ára var sonur vinkonu mömmu að passa mig og nauðgaði mér. Hann var 17 ára, mjög veikur maður. Ég treysti systur minni fyrir því en ári seinna sprakk systir mín og sagði mömmu frá. Þá hafði hann líka verið að áreita hana kynferðislega og sitja um okkur. Hann stóð og horfði inn um gluggann og svona,“ segir hún. 

Guðrún segir frá því að hún hafi skipt nokkrum sinnum um skóla, vegna eineltis sem hún varð fyrir. Þegar hún kom í unglingadeild rofaði til.

„Ég var 13 ára og fór með eldri krökkum á FS ball. Þar prófaði ég fíkniefni í fyrsta skipti og loksins róaðist á mér hausinn. Ég vildi ekki fara aftur í þessa vanlíðan og var á vökunni í fimm daga,“ segir hún.

18 ára mamma sem vissi ekki hvað biði hennar

Þegar Guðrún var 18 ára eignaðist hún sitt fyrsta barn og segist hafa verið viss um að það myndi bjarga henni. Það reyndist ekki verða þannig. 

„Ég hélt að ég fengi þetta líf í hendurnar og allt yrði í lagi. Ég fékk svo mikið fæðingarþyngdi að ég ýtti dóttur minni mikið yfir á mömmu og gat ekki haft hana á brjósti. Mér fannst ég ömurleg og leitaði strax aftur þá í djammið,“ segir hún. 

Það leið ekki á löngu þar til Guðrún var búin að kynnast öðrum manni og eftir stutt kynni varð hún ólétt eftir hann. Hún var sannfærð um að meðganga númer tvö og allt sem henni fylgdi myndi verða öðruvísi. Hún upplifði að hún væri tilbúnari í þetta skiptið. 

„Það gekk betur. Ég var með hana á brjósti í þrjá mánuði en mamma fékk frábæra hugmynd að við færum tvö saman í paraferð til Benidorm, að slaka á, þegar stelpan var þriggja mánaða. Við fórum og duttum í það,“ segir Guðrún. 

Par með tvö börn í herbergi í Breiðholti

Það er ekki hægt að segja að eitthvað sældarlíf hafi beðið Guðrúnar því þegar barn númer tvö var fætt flutti hún í herbergi sem þau kærustuparið leigðu í Breiðholtinu. Þau bjuggu þar með tvö börn.

„Ég man bara að við reyktum bara yfir börnunum þangað til einn daginn komu fimm löggur og barnavernd. Þau tóku börnin og ég var send á Vog. Ég man bara að ég hugsaði að þarna ætti ég ekki heima. Ég fór eftir fjóra daga en Þórarinn Tyrfingsson (fyrrverandi yfirlæknir á Vogi) sagði við mig að við myndum sjást aftur. Ég hélt nú ekki,“ segir hún. 

Lífið gerðist, neyslan kom í tímabilum, börnin komu og fóru þar til einn daginn voru þau komin á götuna og var hún þar í sjö mánuði.

„Ég fann fyrir svo miklum ótta, hvernig kom ég mér hingað,“ spurði Guðrún sig.

Fann þriðja barnsföðurinn í fangelsi

Eftir að hafa lifað á götunni, þar sem ótti og hræðsla og allt sem því fylgir yfirtekur allt, ákvað hún að fara aftur inn á Vog. Hún var örmagna og tilbún að hætta fyrir fullt og allt.

„Ég fór svo í samband með manni sem var í fangelsi. Ég byrjaði að spjalla við hann á Facebook og varð voða skotin í honum en vissi ekki fyrir hvað hann sat inni,“ segir Guðrún sem fór í reglulegar heimsóknir til hans í fangelsið. Þar varð þriðja barnið til. Hún segir að þau hafi verið saman í tvö og hálft ár allt í allt en af þeim tíma sat hann af sér dóm í tvö ár. 

„Ég var ólétt þegar hann kom svo heim og það var eins og ég væri með hvolp heima sem ég þyrfti að ala upp. Ég er í dag með nálgunarbann á hann og þrátt fyrir að hafa reynt í byrjun þá þekkir strákurinn minn ekki pabba sinn,“ segir hún. 

„Ég veit að einhverjir kalla mig tálmunarmömmu og svona en ég setti reglu til að vernda mig og börnin mín. Fólk má segja það sem það vill um mig en ég stend upp, vernda börnin mín og vildi allavega gera rétt í eitt skipti,“ segir Guðrún. 

Hræðilegt Tinder-deit

Guðrún var edrú og í bata þegar hún fór á stefnumót með manni sem hún hitti á stefnumótaforritinu Tinder. Hún segir að þetta Tinder-deit hafi endað með ósköpum.

„Hann nauðgaði mér og ég var öll blá og marin. Ég var með far um hálsinn líka. Ég fór á neyðarmóttökuna og kærði en þrátt fyrir allt sem ég hafði í höndunum fór kæran ekki áfram,“ segir Guðrún. 

Eftir að Guðrún gekk út af neyðarmóttökunni gerði hún það sem hún kunni til að flýja sársaukann, hún deyfði sig með vímuefnum. Það ástand stóð yfir í einn mánuð áður en hún fór aftur í meðferð og hefur hún verið edrú síðan 2020. 

Hægt er að hlusta á Sterk saman á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál