Vinnusemi og auðmýkt borga sig

Orri Steinn Óskarsson var hetja FCK gegn AGF í gær.
Orri Steinn Óskarsson var hetja FCK gegn AGF í gær. Ljósmynd/Alex Nicodim

Jacob Neestrup, þjálfari danska meistaraliðsins FC Köbenhavn, kveðst afar ánægður með hugarfarið hjá Orra Steini Óskarssyni, landsliðsmanninum unga í fótbolta, sem var hetja liðsins í sigrinum á AGF í úrvalsdeildinni í gær.

FCK vann þá 3:2 á Parken og Orri Steinn skoraði öll þrjú mörkin eftir að hafa komið inn á sem varamaður snemma í síðari hálfleiknum. 

Orri hefur aðeins þrisvar verið í byrjunarliðinu í síðustu ellefu leikjum FCK í deildinni en Neestrup hefur oftast valið hinn reynda Andreas Cornelius í liðið á undan Orra, við misjafnar undirtektir. Cornelius hefur aðeins skorað tvö mörk í 16 leikjum í deildinni á tímabilinu en Orri er nú kominn með sjö mörk í 21 leik, er orðinn markahæsti leikmaður liðsins í deildinni og skoraði auk þess þrennu gegn Breiðabliki í undankeppni Meistaradeildarinnar í byrjun tímabilsins.

„Ég er að sjálfsögðu ánægður með að ungur leikmaður sem hefur verið utan byrjunarliðsins, vegna þess að ég og fleiri höfum valið aðra tegund af framherja, skuli standa sig svona vel. Hann sýnir að vinnusemi og auðmýkt borgar sig enn fyrir ungan fótboltamann á árinu 2024. Það er frábært að sjá það," sagði Neestrup við bold.dk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert