Vill biðja Valtý Björn afsökunar

Björgvin Páll Gústavsson kampakátur í leikslok.
Björgvin Páll Gústavsson kampakátur í leikslok. mbl.is/Óttar Geirsson

Björgvin Páll Gústavsson átti stórleik og varði 19 skot, þar af eitt vítaskot, þegar Valsmenn lögðu Steaua Búkarest með sex marka mun, 36:30, á Hlíðarenda í gærkvöldi. Með sigrinum er Valur kominn í undanúrslit Evrópubikarsins og mætir þar CS Minaur Baia Mare sem er einnig frá Rúmeníu.

Spurður út í leikinn sagði Björgvin Þetta:

„Stemningin í höllinni kom mér á óvart, að við fengjum hérna fulla höll og rosalega stemmningu á miðjum páskum er bara frábært og við erum þakklátir fyrir það. En varðandi leikinn sjálfan þá kom mér í raun ekkert á óvart. Orkustigið var æðislegt og við sáum strax í fyrstu sókn hjá þeim að þeir ætluðu að drepa tempóið sem er kannski ekki sniðugt á móti okkur."

Vörn og markvarsla hjá Val í fyrri hálfleik er líklega eitt besta skólabókardæmið sem þú finnur eða hvað?

„Vörn og markvarsla er eitthvað sem að vinnur leikina og það var frábært hjá okkur. Við sjáum líka í upphafi að við erum á fullu. Þeir eru þungir og erfiðir viðureignar með svakalegan línumann og þetta tók orku."

Eitthvað þú sérð strax eftir leik að hafi mátt fara betur?

„Erfitt að svara því strax en kannski að það fór aðeins botninn úr þessu hjá okkur í lokin en það er líka kannski eðlilegt þegar þú ert kominn 10 mörkum yfir. Við erum í þessu sporti fyrir þessa leiki og við erum bara ánægðir með að vera komnir í undanúrslit."

Þú verð 19 skot í kvöld. Er það eitthvað sem hefði mátt vænta fyrirfram hjá þér?

„Valtýr Björn bað um 20 skot frá mér í dag fyrir leik. Ég vill biðja Valtý Björn afsökunar á að það hafi ekki tekist." sagði Björgvin hlæjandi.

Ef við færum okkur yfir í deildina þá tapar FH gegn Haukum og allt galopið fyrir síðustu tvo leikina þar sem það er bara eitt stig í FH. Er ekki á dagskrá að sækja titil númer tvö á leiktíðinni á föstudaginn?

„Ég sé bara ekki FH misstíga sig í sínum síðustu tveimur leikjum en við förum bara í síðustu tvo leikina okkar til að vinna þá og vonandi náum við að stríða þeim eitthvað með deildarmeistaratitilinn," sagði Björgvin Páll að lokum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert